895-1050 - Stór-Reykjavíkursvæðið

849-4012 - Akureyri

Það er sameiginleg samviska hverrar deildar sem tekur ákvarðanir um hennar innri mál, svo sem fundarform, fundartíma, þjónustu og annað tengt fundinum. Samviska deildarinnar skilgreinir hana. Þegar talað er um ,,kjarna deildar" er átt við það fólk sem að jafnaði sækir fundinn. Í AA samtökunum eru engir stjórnendur eða yfirmenn, heldur tölum við gjarnan um þjóna sem við treystum: fólk sem tekur að sér að vinna störfin sem þarf að vinna. Það á jafnt við um þann sem hellir upp á, gjaldkerann sem heldur utan um fjármálin, bókafulltrúann sem sér um að alltaf finnist AA lesefni á fundinum og svo mætti telja. Þess vegna er talað um þjónustunefnd, en hana myndar þessi hópur, en í hann er valið á samviskufundum. Mismunandi er hversu formlegir og formfastir samviskufundirnir eru en reyndir AA menn vita að það er nauðsynlegt að halda samviskufundi, þar sem rödd deildarinnar getur heyrst og fólk talað saman. Þannig má koma í veg fyrir togstreitu og óánægju sem annars getur kraumað undir niðri, skaðleg fyrir heildina.

Segja má að samviskufundir séu eitt fundarformið enn, en þó hefur hann allt annan blæ en venjulegur AA fundur. Viðeigandi er að fólk sem að jafnaði sækir fundinn, taki þátt í að móta starf hans. Samviskufundur er haldinn fyrir eða eftir venjulegan fund og boðað til hans með viku fyrirvara, þ.e. á næsta fundi áður. Sumar deildir halda reglulega samviskufundi, mánaðarlega eða ársfjórðungslega, en aðrar óreglulega. Á samviskufundum er leitt til lykta hvernig staðið verður að málum í deildinni og með kosningu ef þess þarf. Þannig má segja að samviska deildarinnar sé sameiginlegur vilji þeirra sem fundinn sækja, eða meirihluta hópsins.
Hefð er fyrir því á Íslandi að AA deildir geti leitað til landsþjónustunefndar með aðstoð við að halda samviskufundi. Hafið samband á skrifstofu landssamtakanna sé aðstoðar óskað við að halda samviskufund.

Á sama hátt og samviska deilda er hinn eiginlegi leiðtogi hennar, má segja að nefndir geti einnig haldið samviskufundi. AA samtökin eru aldrei formlega skipulögð, samkvæmt níundu erfðavenjunni. Þau ráð eða nefndir sem kosið er í til starfa fyrir AA samtökin geta þannig látið sameiginlega samvisku leiða til lykta sína starfshætti á svipaðan hátt og AA deildir gera.