895-1050 - Stór-Reykjavíkursvæðið

849-4012 - Akureyri

Skráðir fundir eru haldnir á sama tíma vikulega. Inngangsorð AA samtakanna eru lesin í upphafi fundar til að minna okkur á tilgang samtakanna, markmið þeirra og leiðir. Inngangsorðin eru eins í öllum löndum, þýdd í hverju landi fyrir sig: þau má lesa hér.

Í fundarlok tíðkast hjá flestum deildum að lesa úr erfðavenjunum, sérstaklega þá þriðju, sjöundu og tólftu, en þær minna okkur á að taka vel á móti nýliðum, á fjárhagslegt sjálfstæði deilda og á nafnleyndina.  Stundum eru þær allar lesnar. Síðast er farið með bæn, yfirleitt æðruleysisbænina.

Við AA menn og konur samhæfum reynslu okkar styrk og vonir á AA fundum, sem alkóhólistar. Í einföldustu mynd má því segja að hefðbundinn AA fundur hefst á því að leiðari les inngangsorðin og opnar fundinn með því að deila reynslu sinni eða sögu með fundarmönnum. Síðan er orðið ýmist gefið laust eða að gengin er ákveðin tjáningaröð og síðan er orðið gefið laust í lok fundar, en þá rétta þeir upp hendur sem vilja tjá sig. Stundum kemur leiðari með tillögu að sérstöku umræðuefni sem hann vill samhæfa um, en oftast er umræðuefni frjálst. Að lokum er fundi slitið á þann hátt sem að ofan getur.

Í sumum deildum er bætt við innganginn eða lokaorðin, t.d. lestri úr AA bókinni eða öðrum AA bókmenntum, tilkynningum frá ritara deildar eða gjaldkera, lestri reynslusporanna og svo má áfram telja, enda er sérhver AA deild sjálfráða í þessum málum samkvæmt fjórðu erfðavenjunni.