Hátíðarfundur AA-samtakanna á Höfuðborgarsvæðinu 2023 fellur niður.
Í mörg ár og allt til ársins 2020 var hátíðarfundur AA-samtakanna á Höfuðborgarsvæðinu haldinn með umtalsverðum styrk frá opinberum aðila. En slíkt er augljóslega ekki í anda sjöundu erfðavenjunnar sem segir „Sérhver AA-deild ætti að standa á eigin fótum og hafna utanaðkomandi fjárhagsaðstoð."
Einnig segir í löngu útgáfu sjöundu erfðavenjunnar: „Allar AA-deildir ættu að standa á eigin fótum fjárhagslega með frjálsum framlögum eigin félaga."
Á síðasta ári (2022) var gerð tilraun til að reka fundinn í anda sjöundu erfðavenjunnar, sem sagt án framlaga frá opinberum aðilum.
Með miklum hvatningum um aukinn framlög og möguleika á rafrænum framlögum reyndust framlög á fundinum þó lítið hærri en árin á undan, sem skilaði sér í um rétt um milljón krónu tapi á síðasta ári af fundinum.
Það er því ljóst að AA-deildin sem heldur afmælisfundinn okkar á föstudaginn langa stendur ekki undir sér eins og staðan er í dag, nema með utanaðkomandi fjárhagsaðstoð sem gengur þvert á anda sjöundu erfðavenjunnar.
Það er því með trega sem meirihluti Landsþjónustunefndar (LÞN) hefur tekið þá ákvörðun að halda hann ekki í ár. LÞN fannst einfaldlega hún bregðast hlutverki sínu að ráðstafa fé AA-samtakanna á landsvísu á þennan hátt án þess að upplýst samviska AA-deilda á Íslandi tæki afstöðu til málsins.
Því ákvað meirihluti LÞN að vegna hinnar ríku sögu Afmælisfundarins og hversu mikinn sess hann á í hjörtum margs AA fólks að taka neðan greinda tillögu til umfjöllunar á næstu landsþjónusturáðstefnu AA-samtakanna sem haldinn verður í maí á þessu ári, þar sem okkur þykir afar brýnt að upplýst samviska AA-deilda á Íslandi taki afstöðu til þessa máls, þar sem ljóst er að við munum þurfa að nota sameiginlega sjóði okkar til þess að halda fundinn að óbreyttu. Þangað til sú afstaða liggur fyrir álítur LÞN það skyldu sína gagnvart AA-deildum á Íslandi að fara eftir 7. erfðavenjunni og mun því ekki halda fundinn í ár. Það er að sjálfsögðu hverri AA-deild svo í sjálfsvald sett hvernig hún haldi uppá daginn í ár, eins mun þessi ákvörðun að sjálfsögðu ekki hafa nein áhrif á afmælisfundi utan Höfuðborgarsvæðisins.