AA samtökin á Íslandi

AA í samfélaginu

AA-samtökin eru alþjóðlegur félagsskapur karla og kvenna, sem ástunda gagnkvæma hjálp til að lifa lífinu án áfengis og miðla öðrum, sem ennþá eiga við drykkjuvandamál að stríða, fúslega af reynslu sinni. Aðferðir AA-manna byggjast á ,,reynslusporunum tólf" sem vísa veginn til bata frá alkóhólisma.

Í samtökunum starfa um það bil 89.000 deildir í 145 löndum. Hundruð þúsunda alkóhólistar hafa öðlast bata eftir leiðum AA-samtakanna, en AA-menn sjálfir viðurkenna að aðferðir þeirra leiði ekki ætíð til árangurs meðal allra alkóhólista og að sumir þeirra þarfnist sérfræðilegra ráðlegginga eða læknismeðferðar.

AA ber aðeins bata einstaklinganna, sem leita til samtakanna, fyrir brjósti, þannig að þeir fái lifað lífinu óslitið án áfengis. Hreyfingin stundar ekki rannsóknir á sviði alkóhólisma, né heldur lyfja- og geðlækningar. Hún skipar sér hvergi í flokk, þótt AA-félagar megi gera svo að vild sem einstaklingar.

Hreyfingin hefur tileinkað sér þá stefnu að vera fús til óháðrar samvinnu við önnur samtök, sem hafa vandamál alkóhólismans að viðfangsefni.
AA-samtökin á Íslandi stefna að því að vera sjálfum sér nóg með tilstilli eigin deilda og meðlima og að hafna utanaðkomandi fjárhagsaðstoð. AA-menn gæta nafnleyndar í samskiptum við fjölmiðla. 

Hvað er alkóhólismi? 
Alkóhólismi er að okkar dómi stigversnandi sjúkdómur - líkamlegur og andlegur í senn. Alkóhólistarnir, sem við þekkjum, virðast hafa misst getuna til að hafa hemil á vínneyslu sinni.

Hvernig starfar AA? 
AA má lýsa sem aðferð í meðhöndlun alkóhólisma, þar sem einstaklingarnir koma fram sem þátttakendur í hóplækningu í þágu hvers annars. Þannig miðla þeir hver öðrum af gagnkvæmri reynslu sinni, meðan þeir þjáðust af alkóhólisma og leituðust við að fá lækningu.

Hvað eru AA-deildir? 
AA-deildin er undirstaða starfsins. Hver deild er sjálfstæð nema í málum sem koma öðrum deildum eða heildarsamtökunum við. Engin deild hefur húsbóndavald yfir meðlimum sínum. Félagarnir skiptast á þjónustustörfum við stjórn deildarinnar, stutt tímabil í senn.

Hvað eru AA-fundir? 
Hver deild heldur reglulega fundi, þar sem félagarnir segja hver öðrum reynslu sína, venjulega með hliðsjón af hinum tólf ráðgefandi reynslusporum og tólf siðvenjum. Reynslusporin eru andlegir vegvísar á leiðinni til batans, en siðvenjurnar fjalla um samskipti og félagslega afstöðu innan samtakanna og utan. Haldnir eru “opnir“ fundir fyrir alla sem áhuga hafa á starfsemi samtakanna og “lokaðir“ fundir, sem aðeins eru ætlaðir alkóhólistum.

Hverjir eru AA-félagar? 
Hverjum og einum, sem telur sig eiga við áfengisvandamál að stríða, er velkomið að mæta á AA-fundi. Hann verður félagi einfaldlega með því að ákveða það sjálfur. AA-félagar eru karlar og konur á öllum aldri, allt frá táningum upp í öldunga, af öllum kynþáttum og trúarflokkum, að trúleysingjum meðtöldum.

Hvar er AA að finna? 
Vitneskju um það er oft að fá í símaskrá hvers staðar fyrir sig en sé svo ekki, veitir skrifstofa samtakanna í Reykjavík allar upplýsingar, meðal annars upplýsingar um fundarstaði í borginni og um landið allt. (Hér á heimasíðunni er að finna fundaskrá AA samtakanna) AA-fundir í Reykjavík eru hvern dag í húsi samtakanna og flestum safnaðarheimilum kirknanna, auk fleiri staða.

Hvernig samræma AA-deildirnar starfsemi sína? 
AA-deildirnar hafa myndað með sér sameiginlega þjónustunefnd, öðru nafni ,,Landsþjónustunefnd AA-samtakanna á Íslandi", LÞN.  Landsþjónustunefndin er ábyrgur aðili í öllum málum er varða deildirnar sameiginlega og AA-samtökin í heild. 

Hvers má vænta af AA?

AA-félagar reyna að hjálpa öllum sem eiga við áfengisvandamál að stríða og láta í ljós áhuga á að lifa lífinu án áfengis.
AA-félagar eru fúsir að koma til þeirra, sem óska eftir hjálp en þeir telja best að viðkomandi biðji fyrst um slíka hjálp sjálfur.
Þeir reyna að aðstoða við útvegun sjúkrahjálpar, því oft þekkja þeir bestu leiðina þegar slíks er þörf.
AA-félagar eru fúsir til að ræða reynslu sína á gagnkvæmum grundvelli við hvern þann, sem áhuga hefur, hvort heldur sem er í einkasamtölum eða á fundum.

Hvers má ekki vænta af AA?
 - AA-samtökin hvetja engan alkóhólista að fyrra bragði til að leita sér bata eftir AA-leiðinni, né heldur safna þau meðlimum eða leggja að nokkrum manni að ganga í AA.
 - Þau halda ekki félagaskrá og skrá ekki einstaklingsferil nokkurs manns.
 - Taka hvorki þátt í né eiga aðra hlutdeild í rannsóknarstörfum.
 - Eiga ekki hlutdeild að nefndum annarra samtaka í þjóðfélaginu, þótt AA-félagar, deildir og þjónustuskrifstofan eigi tíðum samstarf við þau.
 - Ganga ekki á eftir né hafa eftirlit með AA-félögum.
 - Framkvæma ekki læknisfræðilega eða sálfræðilega sjúkdómsgreiningu.
 - Útvega ekki ,,afvötnunar"- og hjúkrunarþjónustu, lyf eða læknishjálp.
 - Taka ekki þátt í opinberri fræðslu eða áróðri um áfengi.
 - Útvega ekki húsnæði, fæði, fatnað, atvinnu, peninga eða annað til félagslegrar velferðar.
 - Eru ekki ráðgefandi um heimilis- og atvinnumál.
 - Þiggja ekki peninga fyrir þjónustu sína.

Einstakir AA-menn gera þó sitthvað af því, sem talið er hér að ofan en það er þeirra einkamál og er ekki viðkomandi þátttöku þeirra í AA-samtökunum. Margir atvinnumenn á sviði meðferðar við alkóhólisma eru einnig AA-félagar. En atvinna þerra er óðviðkomandi þátttöku þeirra í AA. AA-samtökin í ströngustu merkingu telja það ekki á sínu færi að inna af hendi þá þjónustu, sem fram kemur í ofangreindri upptalningu.

                                                       ºººººº ºººººº ºººººº ºººººº  

Saga AA er vörðuð nöfnum þúsunda manna, lærðra og leikra, sem ekki hafa átt við áfengisvandamál að stríða, en sýnt hafa áhuga og skilning á bataleið AA-samtakanna. Þúsundum saman eigum við þessu fólki líf að launa og þakklætisskuld okkar verður aldrei að fullu goldin.


AA samtökin á Íslandi • Tjarnargata 20 • 101 Reykjavík • Sími: 551 2010 • Fax: 562 8814 • Póstfang: aa(hjá)aa.is
© 2007 Uppsetning og hönnun Hýsir.is